Almennar upplýsingar

Kæribær er þriggja deilda leikskóli og starfa þar börn á aldrinum eins árs til sex ára í 4- 8,1/2 klukkustunda vistun. Deildarnar heita Sólarkot, Stjörnukot og Mánakot. Hægt er að sækja um vistun þegar barn hefur náð sex mánaða aldri. Leikskólinn er opinn alla virka daga frá 7.45-16:15.

Starfsdagar kennara eru sex á ári og eru þeir auglýstir fyrirfram. Þeir eru nýttir til skipulagningar á starfinu, í kynnisferðir og til að sækja námskeið. Þá daga mæta börnin ekki í skólann.

Leikskólinn er starfræktur tæplega 11 mánuði á ári. Yfir sumartímann er lokað í fjórar vikur vegna sumarleyfa barna og starfsfólks, nema annað sé tekið fram.
Gert er ráð fyrir að börn komi og séu sótt innan þess tíma sem foreldrar sækja um. Hægt er að sækja um viðbótartíma eða aðrar breytingar skriflega hjá leikskólastjóra. Ósk um breytingu á vistun þarf að berast fyrir 20.hvers mánaðar.

Aðlögun:

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldri þess. Kynnast þarf nýju og framandi umhverfi. Mikilvægt að vel sé staðið að aðlöguninni í upphafi. Fyrstu dagana er barnið með foreldri/forráðamanni í leikskólanum, það veitir barninu öryggiskennd og tengsl myndast á milli kennara, barns og foreldra/forráðamanns. Barnið og foreldrið/forráðamaður kynnast starfsemi deildarinnar og leikskólans. Aðlögun tekur u.þ.b. 5 daga en getur orðið lengri allt eftir því hvernig gengur. Aðlögunarskipulagið er unnið í samráði við foreldra/forráðamenn.

Viðtöl:

Boðað er til foreldraviðtala árlega og eru þau í afmælismánuði barnsins, nema eitthvað sérstakt sé. Þar er farið yfir þroskaþætti og líðan barnsins í leikskólanum. Haldinn er einn foreldrafundur að hausti á honum er vetrastarfið kynnt. Á þeim gefst kennerum og foreldrum tækifæri til að ræða sín á milli. Foreldrar geta panta viðtöl yfir skólaárið þegar þeim hentar.

Farið er með allar upplýsingar um barnið sem trúnaðarmál

Samstarf heimilis og leikskóla.

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna en leikskólanum ber að veita foreldrum stuðning í uppeldi barna.

Mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust skapist milli heimila og skóla. Foreldrar þekkja barn sitt best, þeir hafa þekkt það frá fæðingu og fylgst með þroskaferli þess og líðan. Leikskólakennari kynnist barni í leikskólastarfi og þekkir þroska þess, færni og viðbrögð í barnahópi.

Fjarvera barna

Nauðsynlegt er að látið er vita ef barnið mætir ekki í leikskólann vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Hafi barn verið veikt er heimilt að óska eftir því að það taki ekki þátt í útiveru fyrsta dag eftir veikindi. Þegar barnið hefur verið hitalaust heima a.m.k. 1 dag áður. Hafi barn verið fjarverandi vegna veikinda í a.m.k. 1 mánuð er heimilt að fella niður dvalargjöld um helming gegn framvísun læknisvottorðs. Ef barn er fjarverandi í 2 vikur samfellt ( 10 virka daga) eða meira er hægt að sækja um niðurfellingu fæðisgjalds, þann tíma, enda sé fjarvera tilkynnt skriflega með fyrirvara.

Lyfjagjafir barna

Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema í undantekningartilvikum svo sem þegar um ofnæmislyf er að ræða eða læknir ávísar lyfi á ákveðnum tímum dags.

Uppsögn á leikskólaplássi

Leikskólaplássi ber að segja upp með mánaðar fyrirvara og er miðað við 1. hvers mánaðar, uppsögnin þarf að berast fyrir 20.hvers mánaðar. Greiðsla leikskólagjalda er innheimt af Fjarðabyggð. Greitt er mánaðarlega, fyrirfram, gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi þann 30.
Fari skuld fram yfir 2 mánuði er litið svo á að leikskólaplássi sé sagt lausu, og undangenginni aðvörun frá leikskólastjóra er hægt að ráðstafa því til annarra.

Aukaföt

Nauðsynlegt er að nemendur hafi ávallt með sér föt til skiptanna (buxur, peysu, nærföt, sokka og sokkabuxur). Auk þess þurfa þau að hafa viðeigandi útivistarfatnað sem hæfir veðri hverju sinni. Mikilvægt er að foreldrar merki fatnað barna sinna. Leikskólinn tekur enga ábyrgð á fatnaði

Umgengni um leikskólann og lóð hans

Foreldrar og aðrir sem ganga um hliðið inn á leikskólalóðina eru beðnir um að loka því ávallt á eftir sér. Nemendum er ekki heimilt að klifra upp á hliðin til að opna og loka þegar þau koma eða eru sótt. Við förum fram á að bílar séu ekki skildir eftir í gangi hér við leikskólann.

Leikföng

Leikföng að heiman eru ekki leyfð nema ef kennarar auglýsi dótadag eða það tengis námi barnsins / aðlögun. Dót að heiman veitir nemenda oft öryggiskennd. Yngstu nemendurnir eru oft með lítið tuskudýr eða dulu til að hafa í hvíldinni.

Starfsdagar.

* Starfsdagar eru sex á ári og eru þeir auglýstir fyrirfram.

* Starfsdagar eru nýttir til skipulagningar á starfinu, kynnisferða og til námskeiða.

* Börnin mæta ekki í leikskólann á starfsdögum.

Afmæli.

  • Við gerum okkur glaðan dag í Kærabæ á afmælisdögum nemandana. Við eigum afmæliskassa sem inniheldur margt spennandi fyrir afmælisbarnið til dæmis kórónu, afmælissögur, búninga og fleira sem nemandinn getur valið um. Afmælissöngurinn er sungin fyrir barnið og sérstakt skjal er látið hanga fyrir ofan hólf .
  • Síðasta föstudag mánaðarins er boðið upp á ís og ávexti til heiðurs afmælisbörnum mánaðarins.

Vakin er athygli á því að ekki er heimilt að dreifa boðskortum í leikskólanum!!